<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 22, 2005


Karamellan okkar Sigrúnar áður en hún var skorin í bita :)


Þetta er Svarti Demanturinn.

Ævintýralegur dagur.

Ég get sagt að dagurinn í gær hafi bara verið heldur ævintýralegur :). Ég byrjaði á því að hitta Sigrúnu útá bókasafni í skólanum mínum til að læra. Þegar við höfðum sitið þar í svona hálftíma fór ég að kvarta í henni yfir þetta væri bara hreinlega ekki nógu góð lesaðstaða. Les borðin eru svona alveg þar sem fólk labbar fram og til baka til að fá lánaðar bækur. Þannig að maður heyrir alltaf tramp í háum hælum og hlátrasköll og píp í "bókalánunarvélinni". Frekar truflandi. Þá stakk Sigrún uppá því að við færum á Svarta demantinn sem er svona svipað og bókhlaðan heima kannski nema bara tíu sinnum flottara.

Við brunuðum þangað á hjólunum okkar og þegar þangað var komið tókum við okkur smá göngutúr um hverfið þar sem Sigrún þurfti að finna hraðbanka.

Svarti demanturinn er tengdur við gamla höll og hefur þess vegna hallargarð sem er mjög flottur. Við löbbuðum í gegnum hann og svo eitthvað áfram bara og að lokum vorum við komnar útá Strikið. Þegar við löbbuðum til baka löbbuðum við aftur í gegnum einhverskonar hallargarð. Stundum koma bara svona dagar þar sem maður sér svo mikið af fallegum húsum og manni finnst maður aftur vera í útlöndum. Svo er svo gaman þegar maður sér þessi gömlu hús að þá getur maður næstum séð fyrir sér hvernig fólkið í gamla daga hefur labbað um þessar götur í fínu fötunum sínum og jafnvel á hestvögnum :). Svo skein sólin svo fallega þó það hafi verið drullukuldi og vettlingaveður.

Þegar við komum aftur inní Svarta demantinn fórum við að lesa í norðursalnum. Hann var eins og klipptur útúr bíómynd. Þið vitið svona borð með grænum lömpum oná og svo fullt af bókum í kring. Mér fannst rosalega gott að lesa þarna og við ætlum að stefna á að gera þetta að lesaðstöðunni okkar fram að prófum.

Svo fórum við og borðuðum á Divane sem er svona kebab staður á Cristianshavn. Reyndar var varla hægt að vera þar fyrir sírenuvæli og löggubílum. Við komumst svo að þvi seinna um kvöldið að það hafði verið skotárás í Cristaníu. Einn lést og þrír særðust. Það var kannski svona til að taka ævintýrabraginn af deginum.

Um kvöldið gerðum við svo karamellur :). Mjög viðburðaríkur dagur.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Eldhúsreglur og spilakvöld

Klukkan átta í kvöld var loksins haldin langþráður eldhúsfundur. Það mættu næstum allir eldhúsnotendur eða tíu manns. Vantaði bara tvo. Nýjar reglur voru samdar og núna á eldhúsið vonandi eftir að líta betur út í framtíðinni og vera þrifalegra. Í raun hefur það skánað heilmikið síðan við nokkar stelpur fórum að kvarta og kveina og skrifa miða útum allt um að fólk ætti að taka uppvaskið og ganga frá eftir sig. Já það borgar sig að kvarta ;). En allavegana ef þetta skánar ekki þá getum við kvartað til húsvarðarins og viðkomandi aðili sem getur ekki séð um að þrífa eftir sig gæti átt það á hættu að vera rekinn úr húsinu ef hann fær tvær kvartanir. Harður heimur en eitthvað verður að gera.

Eftir fundinn spilaði ég "Settlers" með Erwin og Jeppe. "Settlers" er ógeðslega skemmtilegt spil sem snýst um að byggja vegi, hús og bæji. Svo getur maður verslað með grjót, múrsteina, korn, fé og tré. Þetta snýst um að ná tíu stigum og þá vinnur maður. Rosalega gaman :). Og ég vann í þetta skiptið :). VÍÍÍÍÍÍ!!!! Hef bara spilað þetta tvisvar áður. Þetta spil þarf ég líka að eignast ásamt semsagt "Partý og co." og "Mr. & Mrs." Ég er að verða spilaóð. Það er rosalega gaman að setjast niður eina kvöldstund og spila í góðra vina hópi.


Þetta er spilið Settlers.... svaaaakalega skemmtilegt spil :)

mánudagur, apríl 11, 2005

Partý og co.

Á föstudagskvöldið síðastliðið spilaði ég partý og co. með Sigrúnu, Helenu og Gauja. Ég hef aldrei spilað þetta spil áður en þetta er skuggalega skemmtilegt spil. Við skemmtum okkur konunglega og spiluðum það tvisvar. Fyrir þá sem ekki þekkja þetta þá er þetta svona sambland af mörgum spilum. Maður á að safna kökum eins og í Trivial Pursuit og svara spurningum, leika og teikna og ýmislegt skemmtilegt. Ég bara verð að eignast þetta spil.


Svona leit spilaborðið út


Gaman hjá Gauja


Ennþá skemmtilegra hjá Sigrúnu


Helena í ham ;)

föstudagur, apríl 08, 2005


Haha... snilldarmynd sem Stefán sendi mér. Hver segir svo að fótbolti sé karlmannleg íþrótt ;). (nú verður einhver brjálaður) hehe...

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Líkamsræktarkort... hvað er það...

Það sprakk á hjólinu mínu fyrir sottlu síðan og ég kann ekki að laga sprungið dekk. Þegar maður bjó ennþá hjá pabba og mömmu var það yfirleitt pabbi sem sá um þessa hluti. Ég þurfti þess vegna að dröslast með hjólið á hjólaverkstæði í gær. Í fyrstu gekk það ágætlega þar sem ég reiddi bara hjólið svo alltí einu fór hjólið í verkfall og það var ekki hægt að reiða það lengur. Dekkið festist alltaf í handbremsunum þannig að ég varð að halda stýrinu og framdekkinu uppi til að koma því áfram. Vá... það voru sko engin smá átök... hjólið mitt er svona ekta danskt konuhjól og það er sko ekki létt. Ég er meira að segja smá aum í handleggjunum eftir þetta. Þetta jafnaðist á við einn tíma í ræktinni að lyfta ;).

En allavegana... líkamsræktarkort í Danmörku eru skuggalega dýr. Dýrari en heima á klaka. Ég er lengi búin að vera að velta því fyrir mér hvort ég eigi að kaupa mér svoleiðis en komst svo að þeirri niðurstöðu að það er vel hægt að hreyfa sig án þess að borga formúu fyrir það. Þess vegna er ég farin að skokka hring í kringum blokkirnar fyrir framan hjá mér (sem er ágætis hringur ef maður skokkar allan tíman) annan hvorn dag. Svo labba ég upp tröppurnar heima hjá mér eins oft og ég mögulega get. Ég er næstum alveg hætt að taka lyftuna. B.t.w ég bý á 7. hæð fyrir þá sem ekki muna það ;).

Ég og Helena erum svo að fara uppá bókasafn uppí skóla í dag kl. 2 og æltum að sitja þar til 6 og lesa. Við ætlum að taka smá bókasafnstörn núna næstu daga og kannski meira. Jæja það þýðir ekki að sitja hér og blaðra. Nóg að gera.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Jæja... þá getur maður byrjað að blogga aftur ;)

Nonni fór aftur til Íslands í morgun :(. Þetta eru búnir að vera yndislegir dagar síðan hann kom. Við fórum náttla þarna til Englands 25. mars og ég veit að það eru margir að bíða eftir ferðasögunni.

Ferðin út gekk slysalaust fyrir sig þrátt fyrir stress í mér og algera vissu um að eitthvað myndi nú klúðrast. Það voru svakalega fáir í flugvélinni á leiðinni út og það var frjálst sætaval. Ég hef aldrei lent í því fyrr í flugvél. Við komum okkur vel fyrir við neyðarútgang svo að Nonni gat teygt vel úr fótunum og var hæstánægður með það :). Svo gekk allt smurt á Stansted flugvelli. Þetta er samt svaka stórt allt saman og við þurftum að taka lest frá flugvélinni og inn að farangrinum. Svo borguðum við gríðarlegar fjárupphæðir til að komast með lest og neðanjarðarlest inní miðborg London og að hótelinu okkar. Við vorum semsagt fyrstu nóttina á hóteli.

Hótelið var svaaakalega fínt. Rosa flott baðherbergi og forstofa með sófa og öllu inní herberginu og tvö sjónvörp. Daginn eftir tékkuðum við okkur svo út af hótelinu og héldum á vit ævintýranna :). Þá fórum við og skildum farangurinn okkar eftir á lestarstöð og röltum svo um London. Sáum ýmsar fallegar byggingar og löbbuðum í gegnum mjög fallegan garð sem var í vorskrúða.

Við vorum svo ofboðslega sniðug að vera búin að panta okkur miða í London eye fyrirfram á netinu. Þannig sluppum við við heilmikla röð í miðasöluna en hins vegar þurftum við að bíða í svona klukkutíma röð eftir að komast að í sjálft parísahjólið. En það var þess virði :). Þetta var ofboðslega gaman og flott. Sáum yfir alla London.

Eftir hálftíma túr í London Eye fórum við í Maddam Tussaud vaxmyndasafnið. Þegar þangað var komið horfðum við á ógeðslega langa röð sem var fyrir utan húsið og leiddi inn að miðasölu. Við létum okkur hafa það og eftir ca. hálftíma bið komumst við inn í húsið og þar stóð á skilti að nú væru aðeins 40 mínútna bið eftir.... án spaugs við héldumað þetta væri djók. Svo var beðið í annan klukkutíma í röð þar inni. En þetta hafðist fyrir rest. Þegar inn var komið var svo mikið af fólki að það var næstum ómögulegt að sjá hvað væri vaxmyndir og hvað raunverulegt fólk ;) hehe... Maður varð nú nett pirraður svona í restina á mannmergðinni. Maður var endalaust fyrir fólki eða fólk fyrir manni og svo fékk maður endalausar hrindingar og táástíganir ;). En þetta var þrátt fyrir allt mjög gaman. Við Nonni lentum svo tvisvar í sömu japönsku gellunni sem bað okkur um að taka mynd af sér og einhverri vaxmynd. Þá var hún bara ein þarna inni og þurfti alltaf að treysta á að einhver nennti að taka mynd fyrir sig. Ég kalla hana nú góða að treysta fólki svona vel. Það hefði verið minnsta mál að láta sig bara hverfa með myndavélina og jakkann hennar (sem hún bað okkur alltaf um að halda á í leiðinni) inn í fólksfjöldann. En jæja... heppin hún að lenda á svona heiðarlegu fólki eins og mér og Nonna ;).

Eftir vaxmyndasafnið vorum við búin að fá meira en nóg af London og drifum okkur til Bournemouth til Adda og Kjarra. Mikið svakalega eru lestarferðirnar dýrar í Englandi. Ferðin til Bournemouth var glæpsamlega dýr. En það var nú gott að komast heim til strákanna eftir langan dag og mikið labb og ferðalag. Þeir tóku á móti okkur með bjór og svo var rölt aðeins niður í bæ og kíkt á lífið. Við vorum nú ekki lengi að samt. Rétt kíktum inná einn stað og fengum okkur Long Island Ice Tea sem er svaaakalega góður drykkur. Við vorum orðin mjög þreytt og fórum snemma heim í háttinn. Við vorum svo í tvo daga þarna í Bournemouth. Þar var ýmislegt fundið sér til dundurs. Verslað, farið í loftbelg, borðað úti, rölt um bæinn og fleira. Þetta var rosalega gaman allt saman. Við fórum líka á markað sem var niðrí bæ sem seldi allt mögulegt. T.d. krydd, sælgæti, brauð, leðurvörur, úr og skartgripi og name it. Mér fannst bara heilmikill spánarfílíngur í þessu öllu saman fyrir utan það að það var drullukalt allan tímann. Það er nú kannski ekki alveg að marka mig því ég er svo mikil kuldaskræfa. Annars var veðrið yfirleitt mjög fallegt þrátt fyrir kulda.

Svo áður en maður vissi af vorum við komin aftur til Danmerkur. Þá tók við afslöppun. Við vorum nú samt dugleg að fara út. Niðrá Strik og svona t.d.

Ætli þetta sé ekki komið nóg í bili. Ég kalla ykkur góð ef þið hafið nennt að lesa þetta allt ;). Mig langar líka í lokin að minna ykkur á að nú er orðinn tveggja klukkustunda tímamismunur á Íslandi og Danmörku. Danmörk er 2 tímum á undan Íslandi. Sumartíminn semsagt kominn. Svo hendi ég inn nokkrum myndum hérna fyrir neðan úr ferðinni fyrir ykkur að njóta ;).


Á hótelherberginu í London. Forstofan fína með sófa og sjónvarpi og hele klabbið.


Fína baðherbergið. Fancy fancy


Tekið frá forstofunni og inn


Yeb, ég var stödd þarna ;). Þetta er áður en við förum í London eye.


Komin inní London eye. Horft upp.


Á vaxmyndasafninu hitti ég meðal annars Susan Sarandon og Morgan Freeman. Þau voru samt mikið raunverulegri á staðnum heldur en á myndinni


Julia Roberts var vitlaus í kallinn minn ;)


Anthony Hopkins og Sean Connery.... lucky me ;)


Krydd á markaðnum


Uppí loftbelgnum í Bournemouth :)


Úti að borða á svakalega góðum veitingastað á ströndinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?