<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 15, 2006




Nei þetta eru ekki ofsjónir, ég er actually að blogga aftur á svona stuttum tíma. Ég var að koma úr skólanum og mig langaði bara að deila því með ykkur að núna er ég vissari en nokkurn tíman um að þetta er það sem mig langar að gera í framtíðinni. Mér finnst ég bara ofsalega heppin að hafa áttað mig á því hvað mig virkilega langar til að starfa við. Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég flutti út til Danmerkur. Mér finnst nánast allt innan þessa sviðs spennandi.

Núna er ég búin að fara í þrjá tíma í Afasi (málstol) og mér finnst ég vera búin að læra meira heldur en alla önnina í barnatalmeinafræði. Mér finnst þetta endalaust áhugavert. Í tímanum í dag kom til okkar maður sem fékk heilablæðingu fyrir sjö árum og í framhaldi af því lamaðist hann hægra megin í líkamanum og missti málið. Hann hafði tekið ótrúlegum framförum og gat talað við okkur um þessa lífsreynslu sína. Hann talaði frekar hikandi og hægt en var mjög skiljanlegur... jafnvel kannski skiljanlegri en margir danir því þeir eiga það nú til að tala óendanlega hratt. Við Erla bekkjasystir mín töluðum einmitt um það að það væri gott fyrir íslendinga að skilja dönskuna hans :).

En spáiði í því að vera fastur í eigin hugarheimi. Inni í hausnum sínum getur hann sagt allt sem hann vill á þeim hraða sem hann vill en þegar hann þarf að koma orðunum út úr sér verða hlutirnir flóknari. Það koma ekki rétt orð út og þau koma ekki út á þann hátt sem hann vill að þau geri. Þetta hlýtur að vera óstrjórnlega erfitt. Sérstaklega fyrst á eftir þegar engin þjálfun er komin í gang. Vita nákvæmlega hvað maður vill segja en koma engu út úr sér.

Ég er að koma heim til Íslands eftir tvær vikur. Ég helst ekki í Danmörku lengi hehe... Það kom þannig upp fyrir tilviljun að það er engin kennsla frá 30. sept. til 11. okt. Svo er haustfrí frá 14. til 24. okt. Frá 11.-13. okt þarf ég að mæta tvisvar í skólann og ég ákvað að taka bara "kæruleysið" á þetta og skrópa þessa tvo daga til að geta verið í næstum mánuð heima. Ég talaði samt við kennarann minn um þetta og hún sagði að ég gæti þetta ef ég læsi vel og talaði við bekkjasystur mínar um tímana sem ég missi af. Problem solved.

Allavegana þá er ég búin að tala við talmeinafræðing uppá endurhæfingastöðinni á Grensás og hún er búin að samþykkja að ég fái að fylgjast með starfi þeirra í einhvern tíma. Það verður þá praktíkin mín í Afasi. Ég hlakka ekkert smá til að sjá hvernig unnið er með þessa sjúklinga. Ég er að hugsa um að reyna að fá að kíkja á þær þegar ég kem heim núna. Algert möst að vera búin að þessu áður en ég fer í prófið svo ég geti nú nýtt mér upplifunina í prófinu. Ég fer einmitt í munnlegt próf í þessu og þarf að ræða ákveðið "case" fram og til baka. Ég hef aldrei farið í munnlegt próf í háskólanum áður þannig að þetta verður fróðlegt.

Djöfull verð ég ánægð með mig þegar ég verð komin með titilinn Heyrnar- og talmeinafræðingur. Þá verð ég stoltust í heimi :).

sunnudagur, september 10, 2006

Ja, hej med jer.

Jæja, kominn tími til að maður láti aðeins heyra í sér. Nonni kom til mín 1. sept. Tvemur dögum eftir að ég fór út og var að fara bara núna áðan. Hann var hjá mér í heila tíu daga : ). Við náðum alveg að upplifa helling. Við byrjuðum á því daginn sem hann kom að skella okkur á tónleika með íslensku hljómsveitinni “Jeff who” á Vega. Þar voru bönns af íslendingum og svo einn og einn dani á stangli. Fórum með Helenu og Sigríði og hittum svo Gauja félaga Nonna sem er nýfluttur út. Hittum reyndar líka Gunna, nágranna pabba og mömmu sem er svona líka helv.. hress. Hann er á aldri við Nonna.

Svo gerðum við okkur lítið fyrir og skelltum okkur til Odense í tvo daga. Tókum okkur bara ódýran bílaleigubíl og gistum svo á Bed & Breakfast. Það var bara rosa notalegt. Odense er krúttlegur bær og við skoðuðum fæðingarheimili og uppeldisheimili H.C. Andersen. Ég reyndar held að ég ætli nú að reyna að minnka þessi söfn öll á komandi ferðalögum. Þetta er mikið til bara peningaplott. Maður þarf allavegana að vanda vel valið á þessum söfnum. Sum eru bara nákvæmlega ekkert merkileg.

Svo í bakaleiðinni skelltum við okkur til Næstved að heimsækja familíuna sem ég var au-pair hjá. Þar er komið fjórða krílið og hann er orðinn 4 mánaða. Það er alltaf jafn gaman að koma til þeirra. Börnin svo skemmtileg og falleg og Lisbeth og Rasmus taka svo vel á móti manni. Við borðuðum með þeim kvöldmat, hakk og spagettí og svo gerðum við saman eftirrétt úr eplum úr garðinum með rjóma og hunangi og kanil ... mmmmm.... alger snilld.

Svo kíktum við á laugardagskvöldið í heimsókn til Halla og Ástu á Øresundskolleginu. Tókum Singstar þar. Það er nú meiri snilldin. Ég verð nú að viðurkenna að ég var nett feimin við þetta fyrst en svo fór ég öll að koma til og skemmti mér konunglega.

Skólinn er kominn á fullt og núna þegar Nonninn minn er farinn get ég farið að einbeita mér alfarið að lestri. Það er nú feikinóg af honum skal ég segja ykkur. Búin að fara tvisvar í afasi tíma (um málstol eftir t.d. heilatappa eða heilablóðfall). Þeir tímar eru ekkert lítið merkilegir. Alveg ótrúlegur andskoti þessi mannslíkami okkar. Vá hvað ég er alltaf að uppgötva það betur og betur. Ég er ekki frá því að ég geti hugsað mér að fara þessa leið í talmeinafræðinni þó svo að hugurinn minn liggi fastast hjá heyrnafræðinni. En eins og ég segi þá verður skólinn áhugaverðari og áhugaverðari með hverri önninni. Ég er einmitt líka byrjuð í tungumálasálfræði einhverskonar þar sem fókusinn er settur á hvernig manneskjan gerir sig skiljanlega. Kúrsinn er nú lítið farinn í gang ennþá en mér líst bara vel á. Þeir tímar eru annan hvorn miðvikudag og þar á móti kemur að það er gígantískur lestur fyrir hvern tíma þannig að það er eins gott að vera duglegur. Ég er einmitt að fara að flytja fyrirlestur eftir ca. tvær vikur :S ... gangi mér vel segi ég nú bara.

Mig langar að nota tækifærið og óska Solveigu og Guðbjarti til hamingju með nafnið á litla gutta. Hann heitir Aron Ásgeir. Afskaplega fallegt nafn finnst mér : ).

Well... kannski ég fari að slíta mig frá tölvunni í bili. Ætla að vakna snemma í fyrramálið og læra.


Við hittum H.C. Andersen í Odense ;)


Þetta er bíllinn sem við leigðum... Fiat Punto... Haldiði að hann sé glæsilegur kagginn ;)


Við skötuhjúin á roadtrippinu... á leiðinni til Næstved áður en við fórum heim til Köben.


Þarna er ég með Emil minn, sem er orðinn svaka stór og svo litla nýja Alfred. Er þetta ekki yndislegt ;)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?