<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 26, 2007


Sommerfugler i maven.


Í dag stóð ég og hópurinn minn fyrir kennslu í kennslufræðikúrsinum mínum. Við vorum búnar að undirbúa okkur rosalega mikið og þetta gekk eins og í sögu. Alveg rosalega vel. Eftirá fengum við "kritik" eða dóma frá bekknum og kennaranum um hvernig við stóðum okkur og við fengum nánast bara góða dóma :).

Ég er hrikalega ánægð með árangurinn, ánægð með að hafa fengið að upplifa þetta því þetta var bara þrælskemmtilegt og ég er líka ánægð með að þetta er búið og við þurfum ekki að spá í þessu meir. Þetta krafðist mikils undirbúnings og var í raun frekar erfitt verkefni þar sem kennslan átti ekki að fara fram svona eins og við erum flest vön heldur snérist hún um Sókratískt samtal milli fólks. Við þurftum að reyna að kenna með því að ræða saman fram og til baka um hlutina. Það er meira krefjandi en maður heldur skal ég segja ykkur.

Ég var semsagt með fiðrildi í maganum í morgun þar sem þetta var allt saman voða spennandi og auðvitað var maður stressaður að þurfa að standa fyrir framan allt þetta fólk og tala og vera í sviðsljósinu.

Önnur ástæða fyrir fiðrildum í maganum er sú að nú eru bara 2 dagar í heimför. Ég get ekki beðið eftir að koma heim og knúsa Nonna og hitta fjölskylduna og vinina. Eða undirbúa páskana. Nú á ég mitt eigið heimili sem ég get skreytt og fegrað með gulum litum, páskaungum og páskaliljum.

Ég er búin að pakka niður nokkrum albúmum í töskuna sem ég tek með heim í þetta skipti, þar sem ég er í raun bara byrjuð að ferja hlutina mína heim til Íslands núna. Svo koma Nonni og pabbi til mín í júní eftir próf til að hjálpa mér að flytja restina heim. Spennandi, spennandi, spennandi!!!

Þessa dagana er fyrir alvöru komið vor í Kaupmannahöfn. Sólin skín, fuglarnir syngja, börnin leika sér í vatnsslag og svo framvegis. Það er yndislegt að upplifa Kaupmannahöfn á þessum tímapunkti. Að vakna á morgnana og sólin skín svona glatt gerir mann á einhvern óútskýranlegan hátt glaðan. Og að upplifa fallegt, bleikt sólarlag á kyrru kvöldi er líka eitthvað svo yndislegt. Við Helena förum stundum í göngutúr á kvöldin í góða veðrinu og það er virkilega hressandi og skemmtilegt. Vor í Danmörku er bara eitthvað svo yndislegur tími.

Jæja, ég þarf að henda mér í eldhúsgallann og búa til dýrindis pizzu handa okkur Helenu. Hlakka til að hitta sem flesta heima á Íslandi eftir örfáa daga :).

Gleði gleði gleði!!!

fimmtudagur, mars 22, 2007

Hæ hæ

Komin tími á blogg kannski...

Ég er búin að vera að liggja í kvefi undanfarna daga. Byrjaði á leiðinda hálsbólgu sem fór svo sína vanalegu leið útí þetta ömurlega kvef. Ég þoli ekki hvað ég verð alltaf slöpp af kvefi. Af hverju get ég ekki verið eins og Inga vinkona sem finnur varla fyrir því þegar hún fær kvef???
Ég átti að mæta í skólann í gær en var voða mikið á báðum áttum hvort ég ætti að mæta þar sem ég hélt varla höfði fyrir slappleika. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég nú að drífa mig af stað. Þegar ég kom út komst ég að því að það var sprungið á hjólinu mínu. Örlögin eitthvað að taka í taumana þar. Var svo með hálfgerðu óráði í nótt og vaknaði svona þrjú hundruð sinnum til að snýta mér. Nefið mitt er orðið að rauðu flakandi sári sko. Annars er ég búin að vera að háma mig c vítamín. Appelsínur og kíwí í tonnatali á hverjum degi. Plús overdosis af sólhattinum góða. Hef ekki verið mikið að læra undanfarið þar sem ég á erfitt með að einbeita mér að því að læra þegar ég þarf að snýta mér á hálfrar mínútu fresti og er með endalausa hnerrtilfinningu en get ekki hnerrað.

Ég sé samt ljósan punkt á þessu öllu saman. Ég fer heim eftir 6 daga og þá verður kvefið örugglega farið :). Mér finnst það skömminni skárra að taka það út hérna úti heldur en akkúrat þessa fáu daga sem ég verð heima í páskafríinu.

Ég verð semsagt heima um páskana eða frá 28. mars til 10. apríl. Svo kem ég aftur heim 15. maí til að lesa undir prófin,sem ég veit reyndar ekki ennþá hvenær eru, þau eru einhverntímann í júní. Eftir próf er svo ekkert annað að gera en að flytja heim :). Eftir 5 ára búsetu í landi baunanna. Þið trúið því ekki hvað ég hlakka til.

Jæja, ég held ég leggi mig smá og nái úr mér síðustu kvefögnunum.

fimmtudagur, mars 01, 2007


Gleði gleði

Vá hvað spinning er mikil snilld. Ég skellti mér í spinning (þyngdarstig 2, verð aðeins að monta mig hehe) í morgun. Mikið ofboðslega líður manni vel eftir svona tíma. 55 mín. af erfiðu sprikli. Gaman líka að finna hvað maður getur meira og meira eftir því sem skiptunum fjölgar. Mæli tvímælalaust með því að þið prófið spinning ef þið hafið ekki prófað ;). Þjálfarinn okkar var í eitthvað furðulegu skapi í morgun... hehe... hún lét okkur hjóla við eldgamlan danskan jólageisladisk af því að vorið er að koma og þá er allra síðasti séns að hlusta á jólamúsik. Hahaha... nett biluð, en það myndaðist skemmtileg stemning í hópnum við djókið í henni.

Ég fór í tíma í gær frá 15-18 í raddvandamálum. Maður hefði haldið að það yrði þungur tími, þar sem þetta er svona seint um daginn og í raun ekkert svaðalega skemmtilegur kúrs að mínu mati. En það var sko aldeilis ekki. Við erum með tvo kennara í þessu fagi, konu og mann, og í gær kenndi maðurinn okkur í fyrsta skiptið. Hann er læknir og kennir okkur anatomiska hlutann af kúrsinum. Hann gerði þennan tíma alveg rosalega áhugaverðan og skemmtilegan. Núna held ég bara svei mér þá að mér finnist kúrsinn ekki jafn þyngslalegur og mér fannst áður. Rosalega skiptir það miklu máli hvernig kennarinn er uppá það hvernig maður upplifir kúrsinn. Hann setti þetta svo skipulega upp fyrir okkur, reitti af sér brandarana og sagði allavegana þrisvar sinnum að þetta væri skítlétt allt saman og ekkert mál. Rosalega leist mér vel á þetta :). Ég er einmitt líka í kúrsi um kennslufræði og eftir að hafa setið í nokkrum tímum þar er ég orðin meira krítísk á kennarana og kennsluna.

Hafið þið velt því fyrir ykkur hversu oft við öndum í raun að okkur andardrætti ókunnugra??? Ok já ég veit að þetta eru furðulegar vangaveltur og ég hefði ekki farið að spá í þessu nema útaf því að um daginn lenti ég í því að deila lyftu með manni (sem b.t.w. bjó á hæðinni fyrir ofan mig þannig að það var lööööng lyftuferð) sem var svo óendanlega andfúll greyið að ég átti bágt með að kúast ekki. Það var allt andrúmsloftið gjörsamlega undirlagt. Jédúddamía, óska engum þetta upplifelsi.

Við Helena snillingar erum búnar að ákveða að hafa alla mánudaga fiskidaga og alla föstudaga heilsupizzudaga. Þá skiptumst við á að elda fyrir hvor aðra og borðum saman. Við erum náttla að fara yfirum af snilldargáfu sko. Fyrsti pizzadagurinn er í dag og ég er að fara að baka pizzu í aften. Fór í dag í búðina og keypti allskonar heilsusull til að gera pizzuna sem girnilegasta og hollasta :). Svo keypti ég mér dýrindis kaffibaunir sem ég malaði sjálf í búðinni mmmmm.... loksins á ég almennilegt kaffi.

Svo fór ég áðan að spjalla við húsvörðinn um hverjar skyldur mínar eru þegar ég flyt héðan. Hann ákvað að vera voða fyndinn og segja að ég mætti ekki flytja. Kvótinn á flutning frá kolleginu þetta árið væri búinn. Múhahahahaha... gaman að hafa svona skemmtilegan húsvörð. En ég fékk lista yfir hvað þarf að þrífa og svona. Svo komst ég að því að gardínurnar sem ég kveikti í hérna um árið verða ekki dregnar af depositum (tryggingaféið sem ég borgaði þegar ég flutti inn og á að fá til baka þegar ég flyt út nema eitthvað sé skemmt). Það kom mér verulega á óvart. Ég bjóst alveg við að þurfa að borga þá skemmd. Eins og staðan er í dag lítur bara út fyrir að ég fái allt tryggingaféð til baka :).

Jæja, komin tími á að fara að lesa.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?